Nám í Vefþróun

Nám í Vefþróun er verkefnastýrt nám sem lýkur með 90 eininga diplómaprófi á fagháskólastigi (4. stigi framhaldsskólans) með það að markmiði að nemendur geti hafið störf við vefþróun að loknu námi.

Námið skiptist upp í 8 verkefni:

Kynningarverkefni - 3 vikur

Þriggja vikna verkefnalota með staðarlotu þar sem nemendur kynnast grunnatriðum vefþróunar. Þar á meðal er verkefnastjórnun, vefhönnun, útgáfustjórnn, HTML og CSS . Á sama tíma kynnast nemendur því verkefnastýrða námsumhverfi sem þau koma til með að nota í gegnum námið. Þar á meðal eru þær leiðir sem þau geta nýtt sér til þess að afla þeirrar þekkingar og hæfni sem þau þurfa til þess að leysa verkefnið og framkvæmd verkefnisins ásamt kynningu þar sem nemendur sýna þá leikni sem þau hafa náð fyrir framan dómnefnd sem sett er saman af kennurum og óháðum aðilum úr atvinnulífinu.

Íslenski Vef Bransinn - 1 vika

Hér eru veittar 2 einingar fyrir að taka virkan þátt í íslenska vef- samfélaginu. Þar eru ýmsir möguleikar í boði s.s. að sækja ráðstefnur eða minni viðburði tengda vefþróun, taka þátt í starfi félaga eins og SVEF eða SKÝ, taka þátt í vefráðstefnum eða nokkuð annað sem hjálpar nemendum að kynnast fólki í vef- iðnaðinum.

Undirstaða í Vefþróun - 6 vikur

Hér reynir á allt það sem unnið var með í Verkefni 1 en farið er dýpra í grunnatriðin og JavaScript er kynnt til sögunnar. Nemendur kynnast forvinnsluforritum og umgjörðum (e. preprocessors and frameworks) fyrir CSS, öllum helstu grunnatriðum í JavaScript og hönnun notendaviðmóta (e. user interfaces)

Forritaskil og Umgjarðir - 7 vikur

Nemendur kynnast REST forritaskilum (e. rest API) og nýta sér JavaScript umgjörð (e. framework) til þess að búa til vefsíður, CSS kvikun (e. animation) og umbreyting (e. transformation) er kynnt il sögunnar, notendaupplifun og verkefnastjórnun.

Bakenda Forritun - 5 vikur

Nemendur kynnast bakendanum. Þar með talið Node.js og önnur forritunarmál, öryggi, venslaðir og óvenslaðir gagnagrunnar, stýrikerfisköll (e. system calls) og annað sem við kemur bakenda.

App Forritun - 7 vikur

Nemendur nýta sér þá þekkingu sem þau hafa í vefforritun til þess að forrita öpp með React Native eða sambærilegum fjölkerfa (e. multiplatform) lausnum. Farið verður í hraðamælingar og hvernig hámarka megi hraða vefsins. Í hönnun munu nemendur kynnast notendaprófunum og leiðir til þess að hámarka góða notendaupplifun.

Sérverkefni - 4 vikur

Hér velja nemendur sér eitt svið innan vefþróunar sem þau vilja kynnast nánar og kafa djúpt ofan í það efni. Eftir öll þessi verkefni hafa nemendur líklega myndað sér einhverjar skoðanir á vefþróun og vilja ef til vill kanna eitthvað betur eða skoða eitthvað tengt efni sem ekki hefur verið farið í eins og t.d. Internet Hlutanna (e Internet of Things), þrívídd á vefnum, gervigreind, leikjagerð eða hvað annað sem hægt er að hugsa sér.

Lokaverkefni - 16 vikur

Þetta verkefni er hópvinnuverkefni sem hægt er að vinna í samstarfi við fyrirtæki. Hópurinn þarf að vera mjög sjálfstæður í sinni vinnu en fær fund með kennara vikulega til þess að ræða stöðu verkefnisins og greiða úr hugsanlegum vandamálum sem koma upp. Í verkefninu eiga nemendur að herma eftir vinnuumhverfi einhvers fyrirtækis í vefþróunar bransanum og nota sömu tól og verkferla og þau eru að nota.